Bókin um Vigdísi

Er að lesa hana Vigdísi þessa dagana. Þvílík bók! - Hún ætti að vera skyldulesning fyrir allt kvennfólk á Íslandi já og karlana kannski líka. Hún blæs manni eldmóð í brjóst og það rifjast upp fyrir manni gamla kjörorðið - ,,Já ég þori get og vil." Og næst þegar einhver hellir yfir mann karlrembunni getur maður hugsað - þetta er nú ekkert miðað við það sem Vigdís þurfti að kyngja. Fimm stjörnur*****             Birt á Facebook 23. febr “10

Ég er með pistla á Facebook daglega.

Hæ hæ. Tékkaðu á umræðum, yfirlýsinguna ,,Í stuttu máli” og stuðningsyfirlýsingum á hrafnhildursig.blog.is og undir umræður  og í nýjustu fréttum á upplýsingasíðu hópsins: Hrafnhildur Sigurðardóttir – Stuðningshópur í formannsæti SÍM 2010-2012.  http://www.facebook.com/group.php?gid=49710171043                                                            Birt á Facebook 20. feb. “10

Hægri eða vinstri snú?

Vegna framboðs míns til formanns SÍM - Sambands íslenskra myndlistamanna var ég spurð hvort ég væri flokksbundin í pólítískum flokki. Ég er frekar ópólítísk og ekki bundin neinum flokki og kýs því eins og hjartað segir mér hverju sinni. Ekki þar með sagt að ég hafi ekki skoðanir. Tel mig vera húmanista, félagshyggjumanneskju, jafnréttissinna í víðustu merkingu þess orðs, umhverfissinna og feminista með sjálfstæðishugsun að grundvelli. Sem sagt bræðingur. kveðja H.Sig.    

Pistill birtur á Facebook 16. feb. “10

Í stuttu máli sagt – Hrafnhildi Sigurðardóttur í formannssæti SÍM

Málefnin sem ég set á oddinn:
  • Félagið  hefur unnið mikið og gott uppbyggingarstarf síðastliðinn áratug. Vil ég halda því áfram og standa vörð um þau réttindi sem áunnist hafa.

  • Ég vil að SÍM setji sér og öllum þeim sem sitja í nefndum og ráðum fyrir hönd sambandsins siðareglur þar sem siðgæði, gagnsæi og réttlæti ásamt jafnrétti óháð kyni, aldri eða myndlistarmiðli og opin umfjöllun verði í forgrunni.

  • Það er nauðsynlegt að félagar SÍM fái inngöngu í stéttarfélag með fulla sjúkra- og lífeyristryggingu líkt og aðrar starfsstéttir og vil ég vinna að því verkefni.

  • Skattayfirvöld hafa hert aðgerðir í virðisaukaskattsmálum þar sem hartnær öll list önnur en málverk eiga á hættu að verða virðisaukaskattskild. Ég vil vinna að jafnrétti listanna á þessum vettvangi og að horft verði til rýmri laga Norðurlandanna í því sambandi.

  •  Ég bý og starfa í Reykjavík og mun því sjálf sinna ötullega öllum störfum sem formannsembættinu fylgja s.s fundarsetu og samvinnu með ráðum og nefndum í Reykjavík, sem sjálfboðaliðum í stjórn SÍM er nú falið að vinna.

    Hvers vegna Hrafnhildi í formannssætið:
  • Ég hef þriggja ára stjórnunarnám að baki, með aðaláherslu á stjórnun og rekstur félagasamtaka og menningarstofnana(Diploma í opinberri stjórnsýslu).
  • Ég hef þriggja ára reynslu í rekstri sem framkvæmdastjóri, hjá Textílsetri Íslands (“07-“08) og við stofnun og rekstur Ness listamiðstöðvar á Skagaströnd (“08-“10).
  • Ég hef áralanga reynslu af setu í stjórnum um tíu félagasamtaka og stofnana.
  • Ég er ekki flokksbundin í pólítískum samtökum og því ekki bundin eða lituð af málefnum þeirra.
  • Formannsstarf SÍM er 75% starf sem telja má ljóst að ekki sé hægt að sinna í fjarvinnu, þar sem niður tapast tengslanet, mikið og gott uppbyggingarstarf síðustu ára og síðast en ekki síst púlsinn á hvað er að gerast í SÍM húsinu.

    Sjá nánar á vef SÍM http://sim.is/Index/Islenska/Frettir/Syningarigangi/ Með kveðju
    Hrafnhildur Sigurðardóttir

Kynning vegna framboðs til formanns SÍM

Hrafnhildur Sigurðardóttir
Fossagata 4101 ReykjavíkSími 562 0051 / 848 6051

http://www.hsig.net
http://www.hrafnhildursig.blog.is
http://www.sim.is (kynning)
http://www.neslist.is

     

                                   

  Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í formannsembætti SÍM fyrir kjörtímabilið 2010-2012, en aðalfundur SÍM verður haldinn laugardaginn 6. mars 2010 kl.13 í Hugmyndahúsi háskólanna (Saltfélagið).
         
Ég er myndlistarkona, búsett í Reykjavík, og sem formaður SÍM mun ég sinna ötullega öllum þeim störfum sem slíku embætti fylgja, svo sem fundarsetu og samvinnu með ráðum og nefndum í borginni auk stjórnarfunda SÍM. Ég tel áríðandi að halda áfram því mikla uppbyggingarstarfi sem félagið hefur unnið að síðastliðin ár og standa vörð um þau réttindi sem áunnist hafa. Ég vil að SÍM setji sér og öllum félögum, sem sitja í nefndum og ráðum fyrir hönd sambandsins, siðareglur þar sem verklagsreglur um siðgæði, gagnsæi, lög landsins, jafnrétti óháð kyni, aldri eða myndlistarmiðli og opin umfjöllun verði í forgrunni. Jafnframt vil ég vinna að því að félagar SÍM fái inngöngu í stéttarfélag með fulla sjúkra- og lífeyristryggingu líkt og aðrar starfsstéttir. Ég er tilbúin að vinna af krafti fyrir myndlistarmenn í landinu og þætti gott að fá athugasemdir og tillögur að málefnum sem á ykkur brenna.   
         
Ég útskrifaðist úr textíldeild Myndlista- og handíðaskólans árið 1986 en 1997-1998 var ég eitt ár í skúlptúrdeild, áður en ég hélt til Bandaríkjanna, en þaðan útskrifaðist ég árið 2000 með MFA í skúlptúr frá háskólanum í Boulder, Colorado. Árið 2002 hóf ég nám í Háskóla Íslands þaðan sem ég útskrifast með Diploma í stjórnun í ársbyrjun 2008, en jafnframt hef ég lokið námi til BA-prófs í ensku og ritlist. Í vor lýk ég svo síðustu áföngunum til fullgilds meistaraprófs í Opinberri stjórnsýslu(MPA) með áherslu á menningarstjórnun og stjórnun félagasamtaka.  
          
Eins og mörg ykkar vitið þegar, þá hef ég samhliða því að starfa sem myndlistarkona gegnt margvíslegum stjórnunarstörfum fyrir SÍM og aðildarfélag þess Textílfélagið í gegnum árin. Ég sat í fulltrúaráði SÍM 1993-1994 og stjórn þess 1994-1996 og fyrir hönd þess í dómnefnd Listskreytingasjóðs 2004-2006. Eins sat ég í stjórn Textílfélagsins frá 1993-1995, fyrir hönd þess í Form Ísland 1992-1995 og í ýmsum nefndum félagsins frá 2000-2005. Ég hef einnig setið í stjórn annara félaga og sjálfseignarstofnana og t.d. verið ritari bæði AFS-skiptinemasamtaka og Textílseturs á Blönduósi.  
         
Undanfarin tvö ár hef ég unnið að uppbyggingu Ness listamiðstöðvar á Skagaströnd, sem eru gestavinnustofur reknar með svipuðu sniði og hjá SÍM. Ég fékk þá hugmynd, þegar ég sá tvö tóm frystihús til sölu á Skagaströnd, að hér væri tilvalið að setja upp gestavinnustofur fyrir innlenda og erlenda listamenn. Nes listamiðstöð (Nes Artist Residency) var síðan stofnuð í mars 2008 og var ég ráðin sem framkvæmdastjóri í hálfu starfi til að standa að uppbyggingu og rekstri miðstöðvarinnar. Nú tveimur árum síðar getum við tekið á móti 13-15 listamönnum í mánuði og hjá okkur dvöldu á s.l. ári um 110 listamenn. Reynsla mín í því starfi mun nýtast SÍM til frekari uppbyggingar á gestavinnustofum þeirra. 
         
Í komandi kosningum vonast ég eftir stuðningi SÍM félaga. Ef þú vilt styðja mig til formannsembættis, þá bið ég þig að mæla með mér við aðra í félaginu. Eins getur þú gerst stuðningsaðili á Facebook og hvatt aðra vini og SÍM félaga til að gera slíkt hið sama með því að ,,deila” síðunni með öðrum.
Kveðja
 Hrafnhildur Sigurðardóttir                         http://www.hsig.netFossagata 4, 101 Reykjavík                      http://www.hrafnhildursig.blog.is    Sími 562 0051 / 848 6051                        http://www.sim.is
hrafn29@hotmail.com                              http://www.neslist.is

Á ég eða á ég ekki?

Var að lesa greinar á mbl.is þar sem vitnað er í orð breska lávarðarins, sem var sendur hingað til að semja við okkur í Þorskastríðinu. Glætan að það hefðist.  Hann vildi bara minna Breta á nú, að við værum þrjóskir þverhausar sem illt er að tjónka við, enda þjóð sem er komin af víkingum sem svifust einskis, rændu fólki og fé allt frá Bretlandseyjum til Kínamúrsins. Slík þjóð hefði í þorskastríðinu hunsað öll alþjóðleg lög og neitað að semja um skipta aðild að hafsvæðinu kringum Ísland. Nú væru afkomendur hinna sömu víkinga, sem stóðu í stafni og stýrðu dýrum knerri, komin á kreik á ný og þætti vart tiltökumál að stinga af með fé sem þeir hafa líkt og áður náð að sölsa undir sig frá Bretlandseyjum til Asíu. Hann bað nánast guð að blessa Alister Darling og vildi einungis minna á að á þessari eyju byggju ekki raunsætt og rökrétt þenkjandi fólk, enda væri vart hægt að búast við því að afkomendur manna sem sigldu yfir úthafið í opnum bátum og völdu sér illbyggilegt hraunsker í Norður Atlandshafi væri raunsætt á nokkurn hátt, því þá væri Ísland einfaldlega ekki til.  Hann gerir góðlátlegt grín af okkur, um leið og hann minnir Breta á að við látum ekki stjórnast af gamla ljóninu þó lítil séum og vitnar í leið í orð Bismarck sem sagði að oft væru stórar þjóðir kúgaðar af þeim minni.

      Þetta minnti mig á lögin sem þjóðin á að samþykkja eða fella í næsta mánuði. Ég verð að viðurkenna að það þyrmdi yfir mig þegar forsetinn neitaði þeim undirskrifar enda taldi ég, þrátt fyrir að ég sé oftast frekar bjarsýn á framtíðina, að nú værum við endanlega sokkin í sæ. Þá var ég á því að við ættum að skrifa undir strax, annað væri fásinna. Þessi varnaðarorð lávarðsins til bresku þjóðarinnar hafa fengið mig til að efast. Kannski væri betra að sýna enn og aftur okkar innsta eðli þvert á alla skynsemi, þrjóskast við, neita að samþykkja og freista þess að ná fram betri samningum – líkt og forðum daga.  Því eins og T.S. Eliot sagði eitt sinn: “Only those who will risk going too far can possibly find out how far they can go.” Ég ætla í öllu falli að hugsa mig um enn um sinn og vona að ég þurfi ekki að fara í kjörklefann fyrr en í maí.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband