Á ég eða á ég ekki?

Var að lesa greinar á mbl.is þar sem vitnað er í orð breska lávarðarins, sem var sendur hingað til að semja við okkur í Þorskastríðinu. Glætan að það hefðist.  Hann vildi bara minna Breta á nú, að við værum þrjóskir þverhausar sem illt er að tjónka við, enda þjóð sem er komin af víkingum sem svifust einskis, rændu fólki og fé allt frá Bretlandseyjum til Kínamúrsins. Slík þjóð hefði í þorskastríðinu hunsað öll alþjóðleg lög og neitað að semja um skipta aðild að hafsvæðinu kringum Ísland. Nú væru afkomendur hinna sömu víkinga, sem stóðu í stafni og stýrðu dýrum knerri, komin á kreik á ný og þætti vart tiltökumál að stinga af með fé sem þeir hafa líkt og áður náð að sölsa undir sig frá Bretlandseyjum til Asíu. Hann bað nánast guð að blessa Alister Darling og vildi einungis minna á að á þessari eyju byggju ekki raunsætt og rökrétt þenkjandi fólk, enda væri vart hægt að búast við því að afkomendur manna sem sigldu yfir úthafið í opnum bátum og völdu sér illbyggilegt hraunsker í Norður Atlandshafi væri raunsætt á nokkurn hátt, því þá væri Ísland einfaldlega ekki til.  Hann gerir góðlátlegt grín af okkur, um leið og hann minnir Breta á að við látum ekki stjórnast af gamla ljóninu þó lítil séum og vitnar í leið í orð Bismarck sem sagði að oft væru stórar þjóðir kúgaðar af þeim minni.

      Þetta minnti mig á lögin sem þjóðin á að samþykkja eða fella í næsta mánuði. Ég verð að viðurkenna að það þyrmdi yfir mig þegar forsetinn neitaði þeim undirskrifar enda taldi ég, þrátt fyrir að ég sé oftast frekar bjarsýn á framtíðina, að nú værum við endanlega sokkin í sæ. Þá var ég á því að við ættum að skrifa undir strax, annað væri fásinna. Þessi varnaðarorð lávarðsins til bresku þjóðarinnar hafa fengið mig til að efast. Kannski væri betra að sýna enn og aftur okkar innsta eðli þvert á alla skynsemi, þrjóskast við, neita að samþykkja og freista þess að ná fram betri samningum – líkt og forðum daga.  Því eins og T.S. Eliot sagði eitt sinn: “Only those who will risk going too far can possibly find out how far they can go.” Ég ætla í öllu falli að hugsa mig um enn um sinn og vona að ég þurfi ekki að fara í kjörklefann fyrr en í maí.

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband