Færsluflokkur: Lífstíll

Að hefjast handa

Ein stærsta ákvörðun lífs mín var tekin í byrjun sumars, þegar ég afréð að hefjast handa við alsherjartiltekt í öllum geymslum, hirslum og skúmaskotum eftir sumarfrí. Tiltektin hófst formlega 17. september. „Var ég þá í sumarfríi þar til í enda september“? – gæti einhver spurt. Svarið er nei, ég ætlaði að byrja 17. ágúst, daginn eftir heimkomu úr sumarfríinu, en einhvern veginn kom ég mér undan því. Í byrjun september fékk ég svo flensu með hita, sem entist í þrjár vikur! Eftir á að hyggja var það í raun mjög gott, því þar gafst mér tími til að hugsa og leggja áætlun fyrir næstu mánuði. Þar sem ég lá á sófanum, komst ég að því að mig langaði eiginlega til þess að losa mig við allt sem auga á festi. Þegar hitann lægði var ég komin með aðgerðaráætlun um tiltektina og jafnframt það sem þarfnaðist lagfæringar við á heimilinu.   

Um mitt sumar hafði ég verið svo forsjál að segja upp leigusamningnum á geymslunni úti í bæ, enda las ég það í einhverri tiltektar sjálfshjálparbókinni að ef maður er farinn að leigja húsnæði undir dótið, þá sé virkilega kominn tími til að taka til. Upp úr sófanum dröslaði ég mér þann 17. september, enn með talsverðan hita, því þá voru síðustu forvöð að tæma leigugeymsluna. Framkvæmd sem ég hafði haft nær mánuð til að klára, en ýtt á undan mér, myndi renna út á tíma á miðnætti. Öskubuskan fékk hér óræka sönnun fyrir því að frestunarárátta borgar sig ekki. Með hitablandinni einbeitingu og dygga aðstoð frá móður minni, sem ég átti jú inni flutningsgreiða hjá frá því snemmsumars, tæmdi ég sex fermetra geymsluna í einum rykk.

Nú voru góð ráð dýr. Hvert átti ég að setja stöffið? Ég afréð að fara með það heim til mín og koma því fyrir í forstofunni og holinu og afganginn tímabundið í geymslu sem ég hafði aðgang að. Þegar fjölskyldumeðlimirnir birtust úr vinnunni var þeim einfaldlega tilkynnt að herferðin „Dótið burt“ væri nú formlega hafin og að forstofan yrði svona útlítandi næstu mánuði. Til að gera sér grein fyrir stærðargráðu vandamálsins þá var þetta sama dót að ferðast í sjötta sinn milli húsa. Eftir fjórða skiptið tilkynnti hinn annars dyggi aðstoðarmaður minn, að þetta væri í síðasta sinn sem hann flytti þetta sama dót.

Þegar hann svo sá herlegheitin á forstofugólfinu fékk ég strax að heyra að ég hefði lofað að byrja á reiðhjólunum og jafnframt þá spurningu - hvort ég væri nú hætt við að losa okkur við aukahjólin fimm í kjallaranum? Viðkomandi fékk það svar að þau væru á listanum yfir það sem átti að selja á netinu á næstu vikum og mánuðum, hér yrði bara að sýna þolimæði.

Næstu daga voru tvö náttborð, loftljós, þrekhjól, skrifborð og gömul eining úr eldhúsi auglýstar til sölu, en áður höfðu kommóða, golfsett, stór hirsla og gamall tekk hægindastóll, sem alltaf stóð til að gera upp, rokið út í fyrsta kasti. Þegar allt seldist upp á svipstundu var komið að hjónarúminu, hægindastólunum og loks að reiðhjólunum. Ég var komin með „blod på tanden“ eins og sagt er í minni fjölskyldu og nú skyldi allt selt – allt nema bóndinn.   


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband