Að hefjast handa

Ein stærsta ákvörðun lífs mín var tekin í byrjun sumars, þegar ég afréð að hefjast handa við alsherjartiltekt í öllum geymslum, hirslum og skúmaskotum eftir sumarfrí. Tiltektin hófst formlega 17. september. „Var ég þá í sumarfríi þar til í enda september“? – gæti einhver spurt. Svarið er nei, ég ætlaði að byrja 17. ágúst, daginn eftir heimkomu úr sumarfríinu, en einhvern veginn kom ég mér undan því. Í byrjun september fékk ég svo flensu með hita, sem entist í þrjár vikur! Eftir á að hyggja var það í raun mjög gott, því þar gafst mér tími til að hugsa og leggja áætlun fyrir næstu mánuði. Þar sem ég lá á sófanum, komst ég að því að mig langaði eiginlega til þess að losa mig við allt sem auga á festi. Þegar hitann lægði var ég komin með aðgerðaráætlun um tiltektina og jafnframt það sem þarfnaðist lagfæringar við á heimilinu.   

Um mitt sumar hafði ég verið svo forsjál að segja upp leigusamningnum á geymslunni úti í bæ, enda las ég það í einhverri tiltektar sjálfshjálparbókinni að ef maður er farinn að leigja húsnæði undir dótið, þá sé virkilega kominn tími til að taka til. Upp úr sófanum dröslaði ég mér þann 17. september, enn með talsverðan hita, því þá voru síðustu forvöð að tæma leigugeymsluna. Framkvæmd sem ég hafði haft nær mánuð til að klára, en ýtt á undan mér, myndi renna út á tíma á miðnætti. Öskubuskan fékk hér óræka sönnun fyrir því að frestunarárátta borgar sig ekki. Með hitablandinni einbeitingu og dygga aðstoð frá móður minni, sem ég átti jú inni flutningsgreiða hjá frá því snemmsumars, tæmdi ég sex fermetra geymsluna í einum rykk.

Nú voru góð ráð dýr. Hvert átti ég að setja stöffið? Ég afréð að fara með það heim til mín og koma því fyrir í forstofunni og holinu og afganginn tímabundið í geymslu sem ég hafði aðgang að. Þegar fjölskyldumeðlimirnir birtust úr vinnunni var þeim einfaldlega tilkynnt að herferðin „Dótið burt“ væri nú formlega hafin og að forstofan yrði svona útlítandi næstu mánuði. Til að gera sér grein fyrir stærðargráðu vandamálsins þá var þetta sama dót að ferðast í sjötta sinn milli húsa. Eftir fjórða skiptið tilkynnti hinn annars dyggi aðstoðarmaður minn, að þetta væri í síðasta sinn sem hann flytti þetta sama dót.

Þegar hann svo sá herlegheitin á forstofugólfinu fékk ég strax að heyra að ég hefði lofað að byrja á reiðhjólunum og jafnframt þá spurningu - hvort ég væri nú hætt við að losa okkur við aukahjólin fimm í kjallaranum? Viðkomandi fékk það svar að þau væru á listanum yfir það sem átti að selja á netinu á næstu vikum og mánuðum, hér yrði bara að sýna þolimæði.

Næstu daga voru tvö náttborð, loftljós, þrekhjól, skrifborð og gömul eining úr eldhúsi auglýstar til sölu, en áður höfðu kommóða, golfsett, stór hirsla og gamall tekk hægindastóll, sem alltaf stóð til að gera upp, rokið út í fyrsta kasti. Þegar allt seldist upp á svipstundu var komið að hjónarúminu, hægindastólunum og loks að reiðhjólunum. Ég var komin með „blod på tanden“ eins og sagt er í minni fjölskyldu og nú skyldi allt selt – allt nema bóndinn.   


Óforbetranlegur safnari

Ég er fagurkeri og Safnari með stóru S-i. Sem dæmi safna ég slifsum og efnum fyrir bútasaum, garni fyrir prjón, ýmsu efni sem aðrir henda s.s. jólapappír og borða, hólka innan úr klósettpappír og ekki síst fallegum munum úr ABC, Hertex og Góða hirðinum. Geymslan í húsinu mínu (3 fm), garðskúrinn (11 fm) og leigugeymslan úti í bæ (6 fm) eru öll full af dóti. Hingað til hefur mér fundist þetta í lagi af því ég vinn við að skapa og þarf því eðlilega að viða að mér efnum í verkin. Ég fæ hálfgert kvíðakast ef ég þarf að losa mig við hluti, eins og það ætti að fara að taka úr mér lifur og lungu án þess að setja ný í staðinn. Þannig var staðan hjá mér nú í byrjun sumars. 


EN.... á þessu síðasta ári lenti ég bæði í að aðstoða tengdamömmu og mömmu við að flytja úr einbýlishúsi, eftir 50 ára búsetu, í minni íbúðir. Ég sór þess þá að leggja það ekki á einkasoninn, eða fjölskyldumeðlimi, að losa allar geymslurnar og tók því ákvörðun um að Taka til með stóru T-i.

Ég ákvað að gefa mér ár í að klára tiltektina og byrja eftir sumarfrí. Ég las mér til um hvernig best væri að skipuleggja aðgerðina og spurði vinkonurnar, sem allar virtust vera að taka til og gátu gefið góð ráð. Besta ráðið held ég hafi verið að byrja ekki endilega á versta staðnum, heldur þar sem þér gæti fundist skemmtilegt að byrja – þann daginn. Það þýðir að ég veð svolítið úr einu í annað en smám saman er ég að ná tökum á þessu. Ég er búin að selja dót fyrir 200.000 á bland og kaupa þar hillur, skrifborð og  lampa í hagræðingarskyni og skrúfur, nagla, stormjárn og baldakín til að lagfæra hengja upp hluti og ljós, sem staðið hefur til lengi.

Nú eru liðnir rúmir tveir mánuðir frá því ég virkilega hófst handa. Ég segi öllum sem heyra vilja að ég sé að taka til (svo ég hætti nú ekki í miðjum klíðum) og ég hef fengið ófá góð ráð á leiðinni. Ég er búin að tæma leigugeymsluna og get nú komist inn fyrir hurðina á garðskúrnum, en það er mikið eftir.


Heyr Heyr

Ég mæli ég eindregið með lesningu greinar frá Pétri Gunnarssyni. Tær snilld á visir.is http://visir.is/article/20100305/SKODANIR03/316954197

Listamaður án launa.

Það er á margan hátt vanþakklátt starf að vera myndlistamaður og enn vanþakklátara starf að sitja í úthlutunarnefnd launasjóðs myndlistarmanna fyrir hönd stjórnar SÍM- Samband íslenskra myndlistarmanna. Það starf, þótt launað sé, vill helst enginn vinna af hendi, enda álíka illa þokkað og böðulstarf fyrri alda. Ég hef það frá fyrstu hendi að þetta sé eitt erfiðasta starf sem myndlistamaður getur tekið sér fyrir hendur, enda líkt og að skipta hálfu brauði milli allra andanna á tjörninni. Af 250 umsóknum ættu 125 alveg pottþétt að fá laun, en sjóða þarf þann hóp niður í skrefum þar til eftir standa um 25 umsækjendur eða 10%. Nefndarmenn mega síðan sitja undir upphringingum allan sólarhringinn, adróttunum, skítkasti, vinaslitum og jafnvel morðhótunum (ótrúlegt en satt), meðan á ferlinu stendur og vikurnar eftir lokaniðurstöðu. Því ekki að undra að enginn vilji taka verkið að sér.

Margir vilja meina að tómur klíkuskapur ráði vali á listamönnum, en ég hef alltaf kosið að trúa því að nefndarmenn SÍM vinni af heilum hug og reyni að gera sitt besta í vonlausri stöðu. Það gladdi mig því ósegjanlega mikið, þegar ég loks fékk mín fyrstu listamannalaun eftir rúmlega áratugs bið, að ég þekkti hvorki haus né sporð á nefndarmönnum, og taldi mig þannig hafa afsannað klíkukenninguna. Tölfræðilega séð þá stemmdi einmitt úthlutunin upp á dag – þar sem maður ætti í raun ekki að fá laun nema tíunda hvert ár, þ.e.a.s. ef laununum væri skipt hnífjafnt milli umsækjenda.

En hvað olli þessum umskiptum? Þegar ég fékk síðasta neitunarbréfið var ég búin að vinna ötullega að myndlistinni með margar einka- og samsýningar í fortíðinni og í deiglunni. Viðbrögð mín voru líkt og margra annara í sömu sporum - gífurleg vonbrigði. Segja má að maður fari í gegnum allt sorgarferlið. Vantrú, doði, uppnám, reiði, þunglyndi og loks spurningin: ,,Hvað þarf ég eiginlega að gera?” Með þessa spurningu fór ég til eins nefndarmanna og sagði að hingað til hefði ég verið tilbúin að ,,gera allt fyrir frægðina nema koma nakin fram” nú væri ég hinsvegar búin að skipta um skoðun og tilbúin að ganga nakin niður Laugarveginn ef á þyrfti að halda.

Hvað ég gerði síðan er efni í heila grein, en ljóst er að þau 360 mánaðarlaun sem nú eru til skiptanna duga ekki til að metta alla munna og þó að starfslauna til listamanna muni á næstu árum fjölga úr 1200 í 1600 mánaðarlaunum þá er það dropi í hafið. Hlutfall mitt til starfslauna er til dagsins í dag 12 neitanir og 2 jásvör og gefur augaleið að ekki er hægt að lifa á því, en sálartetrinu er hólpið, því það fylgir því viss ró að hafa loks fengið ,,atvinnumannastimpilinn.” Ég skil því vel þá listamenn sem hafa sótt um starfslaun listamanna árum og áratugum saman og fengið nei – og lái þeim hver sem er að koma með samsæriskenningar. Hér þyrfti SÍM að setja sér og öllum þeim sem sitja í nefndum og ráðum fyrir hönd sambandsins siðareglur þar sem siðgæði, gagnsæi og réttlæti ásamt jafnrétti óháð kyni, aldri eða myndlistarmiðli og opin umfjöllun verði í forgrunni, svo allt sé uppi á borðum.

Myndlistarmenn geta lögum samkvæmt ekki sótt um atvinnuleysisbætur jafnvel þó þeir hafi farið jafn illa út úr bankahruninu eins og starfsmenn bankanna, peningarnir horfnir og viðskiptavinir og styrktaraðilar dagaðir uppi eins og pollar í sólskini. Við eigum hvergi sameiginlegt skjól og tel ég það eitt af brýnustu verkefnum SÍM að vinna áfram að inngöngu í  stéttarfélag með fulla sjúkra- og lífeyristryggingu til handa listamönnum. Eins þyrfti að leggjast yfir lögin, hugsa út fyrir kassann og athuga hvort ekki sé hægt að kom á réttlátara kerfi t.d. eitthvað í líkingu við það kerfi sem notað er í Noregi. Þar er, fyrir utan listamannalaun, einnig í gangi púnktakerfi (sem samsett er úr fjölda sýninga, námi og lífaldri),þar sem ríkið, að uppfylltum skilyrðum, tryggir þér lágmarkslaun ef illa árar. Þannig halda listamenn sinni vinnu og þurfa ekki að sækja á annara manna mið.

Ef slíkt kerfi yrði gangsett þá þyrftu listamenn ekki að svara, líkt og ég geri þegar sá gállinn er á mér, að ég vinni í sjálfboðavinnu. Það vekur yfirleitt áhuga fólks og það spyr hvaða vinna það sé. Svarið er á eina leið: ,,Ég vinn í sjálfboðavinnu við að búa til myndverk – ég er myndlistarkona.” Það eru alls ekki allir sem fatta brandarann, né finnast hann fyndinn. Reyndar finnst mér það ekki fyndið sjálfri.

Hrafnhildur Sigurðardóttir er myndlistarmaður, forstöðumaður og hugmyndasmiður Ness listamiðstöðvar á Skagaströnd og frambjóðandi í formannskosningu SÍM – Sambandi íslenskra myndlistarmanna sem verða laugardaginn 6. mars í Hugmyndahúsi háskólanna.   


Laun til listamanna minnka atvinnuleysi.

Um mánaðarmótin febrúar-mars ár hvert er sem fjandinn verði laus þegar birt er niðurstaða Stjórnar listamannalauna þ.e. hver skuli hljóta starfslaun listamanna það árið. Samsæriskenningar líta dagsins ljós bæði frá hendi listamanna og almennings og fjölmiðlar blanda sér í leikinn. Þessi mánaðarmót eru engin undantekning og má segja að Bylgjan hafi komið hreinni flóðbylgju af stað mánudaginn 1.mars í þættinum Í bítið með spjalli um listamannalaun. Þar skipuðu Heimir og Þráinn sér í hlutverk sækjenda og Sólveig tók að sér verjandahlutverk menningarinnar í landinu og síminn opinn fyrir almenning að leggja orð í belg.

Að sjálfsöðu voru skiptar skoðanir á hlutunum sem verður alltaf á öllum hlutum, sérstaklega þegar ónógar forsendur liggja fyrir ákvarðanatöku. Ýmislegt fékk að fjúka í þessum fyrsta þætti Í bítið. Að launasjóður væri subbulegur speni, launasjóður blóðsugna sem ætti að leggja af, eða snobbatvinnuleysisbætur, sem sýnir einmitt hve lítt upplýst fólk er um efni þessara styrkja. Líkt og Njörður Sigurjónsson lektor við Háskólann á Bifröst benti á í þarfri grein sinni um ,,Listlaun og menningarstefnu” í Fréttablaðinu 4. mars, þá er heitið ,,listamannalaun” misvísandi heiti á þeim verkefnastyrkjum sem verið er að úthluta. Verkefnastyrkir sem styrkhafendur þurfa að gera grein fyrir hvernig voru notaðir, ekki ósvipað og þeir stofn- og verkefnastyrkir sem úthlutaðir eru árlega til fyrirtækja og félaga hjá Fjárlaganefnd. Eins var í þættinum uppi misskilningur á því hve margir væru á þessum ,,spena” og var tölunni 1.200-1.600 hent fram en það er einmitt fjöldi mánaða sem úthlutaðir voru. Viðbrögð við þættinum létu ekki á sér standa bæði hjá almenningi og listamönnum og skrifaði Sara Riel myndlistarkona þeim þáttastjórnendum bréf og tók upp hanskann fyrir sitt fólk. Þetta svar virðist hafa farið fyrir brjóstið á einum þáttastjórnandanum, af svari hans að dæma, en nálgast má bæði bréfin á heimaslóð Söru á Facebook.

Daginn eftir hélt umræðan áfram Í bítið og var Þráinn Bertelsson rithöfundur og þingmaður fenginn til að koma og ræða um listamannalaunin. Hann var kannski ívið háfleygur fyrir hinn almenna hlutstanda en benti réttilega á að listamannalaunin eru ,,einhver besta fjárfestingin sem ríkið leggur út í” og því er ég innilega sammála. Hvers vegna er það góð fjárfesting? Fyrir því eru tvö megin rök.

Í fyrsta lagi hafa verið gerðar kannanir á hinum Norðurlöndunum þar sem sannað þykir að það sé fjárhagslega hagkvæmt að setja pening í menningu og listir, því að fyrir hverja krónu sem sett er í menninguna koma TVÆR til baka. Þetta er í formi aukinna starfa, skatta, virðisaukaskatts og gjaldeyris sem kemur inn í landið. Þar sem þjóðfélagsuppbygging og virðisaukaskattur er viðlíka og hjá nágrönnum okkar tel ég að niðurstaða slíkra kannanna yrði hér mjög svipuð.

Í öðru lagi þá gera listamannalaun það að verkum að listamenn geta sinnt því starfi sem þeir eru bestir í og hafa menntað sig til, í stað þess að vera í aukavinnu við skúringar, afgreiðslustörf, bankastörfum, kennslu o.s.frv. sem aðrir eru mun færari að sinna. Þannig losna hreinlega störf fyrir aðra, þar sem listamenn mega ekki þiggja laun á örðum stað meðan þeir gegna listamannalaunum. Í landi þar sem atvinnulausir eru 17.000 manns tel ég að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að hreinlega styrkja alla 3.000 listamenn í landinu (tala félagsmanna í BÍL – Bandalagi íslenskra listamanna) til að sinna sínum hugðarefnum og láta þannig atvinnulausum eftir þau störf sem þeir sinna sér til viðurværis nú. Þannig myndi atvinnulausum fækka niður í 15.000. Raunar myndi atvinnuleysið minnka enn meir ef marka má aðra könnum sem gerð var bæði í Finnlandi og Danmörku. Þar fundu menn út að fyrir hvern starfandi listamann í landinu í fullu starfi eru níu í vinnu beinlínis vegna hans starfa og við að þjónusta hann. Þarna erum við að tala um fjölmiðlafólk (fyrst skal frægan telja), vefforritara , starfsmenn listasafna, gallería, póshúsa, verslana sem selja efniviðinn, flugfélaga, samgöngufyrirtækja, prentsmiðja og svo mætti lengi telja. Mér reiknast til að við gætum einfaldlega útrýmt atvinnuleysi með því að setja alla listamenn landsins á ,,spenann” og skapað að auki 13.000 störf, því það er enginn endir á því hvað frjóum listamönnum dettur í hug að setja á laggirnar ef þeim er gefinn tími og ráðrúm til þess.

Eini viðmælandinn Í bítið sem mér fannst hafa eitthvað til málanna að leggja var kvennmaður sem vildi láta tekjutengja listamannalaunin, hugmynd sem er alls ekki fráleit og hefur reyndar lengi verið við lýði hjá norðmönnum. Þannig tryggir ríkið starfandi listamönnum sem uppfyllt hafa vissann punktafjölda (sem byggist á blöndu af námi, sýningarfjölda og aldri) lágmarkslaun(n.minstelönn) þar sem listamaðurinn fær milligjöfina frá ríkinu hafi honum ekki tekist að selja listaverk sem nemur atvinnuleysisbótum þann mánuðinn.

Fyrst rætt er um Noreg þá má geta þess að út var að koma svartaskýrsla þar í landi, sem lýsir bágri stöðu myndlistarmanna. Ég hef dvalið langdvölum í Noregi og hefur nú fundist sem þar drjúpi smjör af hverju strái og bíð því spennt að komast yfir eintak af þessari skýrslu. Ég vil að SÍM fái óháða aðila til að bera norsku skýrsluna saman við stöðu íslenskra myndlistarmanna og mætti segja mér að staðan væri svona líkt og hjá Oliver Twist fyrir og eftir ættleiðingu. Kannski væri auðveldasta lausnin á deilumálum um listamannalaun að þiggja boð norðmannsins sem vildi gera Ísland ríki í Noregi, ég tel allavega að þá væri okkur myndlistarmönnum borgið.

 

Hrafnhildur Sigurðardóttir er myndlistarmaður, forstöðumaður og hugmyndasmiður Ness listamiðstöðvar á Skagaströnd og frambjóðandi í formannskosningu SÍM – Sambandi íslenskra myndlistarmanna sem verða laugardaginn 6. mars.


Kjör myndlistarmanna

Út var að koma svartaskýrsla myndlistarmanna í Noregi, sem lýsir bágri stöðu myndlistarmanna þar í landi. Mér hefur fundist sem þar drjúpi smjör af hverju strái og bíð því spennt að komast yfir eintak af þessari skýrslu. Ég vil að SÍM fái óháða aðila til að bera norsku skýrsluna saman við stöðu íslenskra myndlistarmanna. Mætti segja mér að staðan væri svona líkt og hjá Oliver Twist fyrir og eftir ættleiðingu. Birt 3.mars”10

Kosningar í SÍM

Það er sama hvar ég kem þessa dagana listamenn landsins eru að ræða um fyrirstandandi kosningar innan SÍM, en sú óvenjulega staða er komin upp að ekki er sjálfkjörið í stjórn. Ég man ekki eftir slíkri stöðu síðan Áslaug Torlacius var kosin fyrir átta árum og kosningahasarnum um miðjan tíunda áratuginn þegar allt var vitlaust á tveggja ára fresti. Þeir listamenn sem ég hef hitt eru sammála um að þetta hafi hleypt lífi í félagsmenn og umræðurnar um stöðu og kjör listamanna og einn vildi líkja þessu við uppvakningu af þyrnirósasvefni. Verðum við ekki bara að ráða Ástþór í verkið annað hvert ár til að halda umræðunni gangandi?                          Birt stytt á Facebook 2.mars.”10

Kúnstin að afla sjálfsaflarfé

Nú þegar styrktaraðilar hafa dagað upp eins og pollar í sólskini er áríðandi að í formannssæti SÍM veljist manneskja sem hefur innsýn og kunnáttu til að afla sjálfsaflarfé og veit hvert sækja á styrki. Ég tel mig hafa mikla reynslu á þessu sviði, eftir áratuga lífsbaráttu sem myndlistarmaður og framkvæmdastjóri seturs og listamiðstöðvar s.l. þrjú ár, þar sem líflínan hangir á þræði styrktaraðilanna.  Birt  á Facebook 28. feb “10

Að vinna sjálfboðaliðsvinnu

Þegar sá gállinn er á mér svara ég því til þegar ég er spurð hvað ég geri að ég vinni aðallega í sjálfboðavinnu (þetta gerist oftast í kringum úthlutun úr Launasjóði myndlistarmanna). Það vekur yfirleitt áhuga hjá fólki: ,,Hvers slags vinna er það, og hjá hverjum?”Svarið er á eina leið: ,,Ég vinn í sjálfboðavinnu við að búa til myndverk – ég er myndlistarkona.” Það eru alls ekki allir sem fatta brandarann, né finnast hann fyndinn. Reyndar finnst mér það ekki fyndið sjálfri.  Birt á Facebook 27. febr “10

Fyrirheitna landið?

Sem formaður SÍM vildi ég vinna að því að fá samþykkt púnktakerfi líkt og tíðkast í Noregi. Eftir vissan púnktafjölda (sem næst yfirleitt svona um sextugt) þá tryggir ríkið listamanninum “minstelönn” þ.e. að ef hann ekki selur fyrir upphæð sem nemur atvinnuleysisbótum þá fær hann milligjöfina frá ríkinu. Eflaust væri auðveldara að þiggja boð norðmannsins sem vildi gera Ísland ríki í Noregi.   Birt á Facebook 27.feb “10

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband