Listamaður án launa.

Það er á margan hátt vanþakklátt starf að vera myndlistamaður og enn vanþakklátara starf að sitja í úthlutunarnefnd launasjóðs myndlistarmanna fyrir hönd stjórnar SÍM- Samband íslenskra myndlistarmanna. Það starf, þótt launað sé, vill helst enginn vinna af hendi, enda álíka illa þokkað og böðulstarf fyrri alda. Ég hef það frá fyrstu hendi að þetta sé eitt erfiðasta starf sem myndlistamaður getur tekið sér fyrir hendur, enda líkt og að skipta hálfu brauði milli allra andanna á tjörninni. Af 250 umsóknum ættu 125 alveg pottþétt að fá laun, en sjóða þarf þann hóp niður í skrefum þar til eftir standa um 25 umsækjendur eða 10%. Nefndarmenn mega síðan sitja undir upphringingum allan sólarhringinn, adróttunum, skítkasti, vinaslitum og jafnvel morðhótunum (ótrúlegt en satt), meðan á ferlinu stendur og vikurnar eftir lokaniðurstöðu. Því ekki að undra að enginn vilji taka verkið að sér.

Margir vilja meina að tómur klíkuskapur ráði vali á listamönnum, en ég hef alltaf kosið að trúa því að nefndarmenn SÍM vinni af heilum hug og reyni að gera sitt besta í vonlausri stöðu. Það gladdi mig því ósegjanlega mikið, þegar ég loks fékk mín fyrstu listamannalaun eftir rúmlega áratugs bið, að ég þekkti hvorki haus né sporð á nefndarmönnum, og taldi mig þannig hafa afsannað klíkukenninguna. Tölfræðilega séð þá stemmdi einmitt úthlutunin upp á dag – þar sem maður ætti í raun ekki að fá laun nema tíunda hvert ár, þ.e.a.s. ef laununum væri skipt hnífjafnt milli umsækjenda.

En hvað olli þessum umskiptum? Þegar ég fékk síðasta neitunarbréfið var ég búin að vinna ötullega að myndlistinni með margar einka- og samsýningar í fortíðinni og í deiglunni. Viðbrögð mín voru líkt og margra annara í sömu sporum - gífurleg vonbrigði. Segja má að maður fari í gegnum allt sorgarferlið. Vantrú, doði, uppnám, reiði, þunglyndi og loks spurningin: ,,Hvað þarf ég eiginlega að gera?” Með þessa spurningu fór ég til eins nefndarmanna og sagði að hingað til hefði ég verið tilbúin að ,,gera allt fyrir frægðina nema koma nakin fram” nú væri ég hinsvegar búin að skipta um skoðun og tilbúin að ganga nakin niður Laugarveginn ef á þyrfti að halda.

Hvað ég gerði síðan er efni í heila grein, en ljóst er að þau 360 mánaðarlaun sem nú eru til skiptanna duga ekki til að metta alla munna og þó að starfslauna til listamanna muni á næstu árum fjölga úr 1200 í 1600 mánaðarlaunum þá er það dropi í hafið. Hlutfall mitt til starfslauna er til dagsins í dag 12 neitanir og 2 jásvör og gefur augaleið að ekki er hægt að lifa á því, en sálartetrinu er hólpið, því það fylgir því viss ró að hafa loks fengið ,,atvinnumannastimpilinn.” Ég skil því vel þá listamenn sem hafa sótt um starfslaun listamanna árum og áratugum saman og fengið nei – og lái þeim hver sem er að koma með samsæriskenningar. Hér þyrfti SÍM að setja sér og öllum þeim sem sitja í nefndum og ráðum fyrir hönd sambandsins siðareglur þar sem siðgæði, gagnsæi og réttlæti ásamt jafnrétti óháð kyni, aldri eða myndlistarmiðli og opin umfjöllun verði í forgrunni, svo allt sé uppi á borðum.

Myndlistarmenn geta lögum samkvæmt ekki sótt um atvinnuleysisbætur jafnvel þó þeir hafi farið jafn illa út úr bankahruninu eins og starfsmenn bankanna, peningarnir horfnir og viðskiptavinir og styrktaraðilar dagaðir uppi eins og pollar í sólskini. Við eigum hvergi sameiginlegt skjól og tel ég það eitt af brýnustu verkefnum SÍM að vinna áfram að inngöngu í  stéttarfélag með fulla sjúkra- og lífeyristryggingu til handa listamönnum. Eins þyrfti að leggjast yfir lögin, hugsa út fyrir kassann og athuga hvort ekki sé hægt að kom á réttlátara kerfi t.d. eitthvað í líkingu við það kerfi sem notað er í Noregi. Þar er, fyrir utan listamannalaun, einnig í gangi púnktakerfi (sem samsett er úr fjölda sýninga, námi og lífaldri),þar sem ríkið, að uppfylltum skilyrðum, tryggir þér lágmarkslaun ef illa árar. Þannig halda listamenn sinni vinnu og þurfa ekki að sækja á annara manna mið.

Ef slíkt kerfi yrði gangsett þá þyrftu listamenn ekki að svara, líkt og ég geri þegar sá gállinn er á mér, að ég vinni í sjálfboðavinnu. Það vekur yfirleitt áhuga fólks og það spyr hvaða vinna það sé. Svarið er á eina leið: ,,Ég vinn í sjálfboðavinnu við að búa til myndverk – ég er myndlistarkona.” Það eru alls ekki allir sem fatta brandarann, né finnast hann fyndinn. Reyndar finnst mér það ekki fyndið sjálfri.

Hrafnhildur Sigurðardóttir er myndlistarmaður, forstöðumaður og hugmyndasmiður Ness listamiðstöðvar á Skagaströnd og frambjóðandi í formannskosningu SÍM – Sambandi íslenskra myndlistarmanna sem verða laugardaginn 6. mars í Hugmyndahúsi háskólanna.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband