Laun til listamanna minnka atvinnuleysi.

Um mánaðarmótin febrúar-mars ár hvert er sem fjandinn verði laus þegar birt er niðurstaða Stjórnar listamannalauna þ.e. hver skuli hljóta starfslaun listamanna það árið. Samsæriskenningar líta dagsins ljós bæði frá hendi listamanna og almennings og fjölmiðlar blanda sér í leikinn. Þessi mánaðarmót eru engin undantekning og má segja að Bylgjan hafi komið hreinni flóðbylgju af stað mánudaginn 1.mars í þættinum Í bítið með spjalli um listamannalaun. Þar skipuðu Heimir og Þráinn sér í hlutverk sækjenda og Sólveig tók að sér verjandahlutverk menningarinnar í landinu og síminn opinn fyrir almenning að leggja orð í belg.

Að sjálfsöðu voru skiptar skoðanir á hlutunum sem verður alltaf á öllum hlutum, sérstaklega þegar ónógar forsendur liggja fyrir ákvarðanatöku. Ýmislegt fékk að fjúka í þessum fyrsta þætti Í bítið. Að launasjóður væri subbulegur speni, launasjóður blóðsugna sem ætti að leggja af, eða snobbatvinnuleysisbætur, sem sýnir einmitt hve lítt upplýst fólk er um efni þessara styrkja. Líkt og Njörður Sigurjónsson lektor við Háskólann á Bifröst benti á í þarfri grein sinni um ,,Listlaun og menningarstefnu” í Fréttablaðinu 4. mars, þá er heitið ,,listamannalaun” misvísandi heiti á þeim verkefnastyrkjum sem verið er að úthluta. Verkefnastyrkir sem styrkhafendur þurfa að gera grein fyrir hvernig voru notaðir, ekki ósvipað og þeir stofn- og verkefnastyrkir sem úthlutaðir eru árlega til fyrirtækja og félaga hjá Fjárlaganefnd. Eins var í þættinum uppi misskilningur á því hve margir væru á þessum ,,spena” og var tölunni 1.200-1.600 hent fram en það er einmitt fjöldi mánaða sem úthlutaðir voru. Viðbrögð við þættinum létu ekki á sér standa bæði hjá almenningi og listamönnum og skrifaði Sara Riel myndlistarkona þeim þáttastjórnendum bréf og tók upp hanskann fyrir sitt fólk. Þetta svar virðist hafa farið fyrir brjóstið á einum þáttastjórnandanum, af svari hans að dæma, en nálgast má bæði bréfin á heimaslóð Söru á Facebook.

Daginn eftir hélt umræðan áfram Í bítið og var Þráinn Bertelsson rithöfundur og þingmaður fenginn til að koma og ræða um listamannalaunin. Hann var kannski ívið háfleygur fyrir hinn almenna hlutstanda en benti réttilega á að listamannalaunin eru ,,einhver besta fjárfestingin sem ríkið leggur út í” og því er ég innilega sammála. Hvers vegna er það góð fjárfesting? Fyrir því eru tvö megin rök.

Í fyrsta lagi hafa verið gerðar kannanir á hinum Norðurlöndunum þar sem sannað þykir að það sé fjárhagslega hagkvæmt að setja pening í menningu og listir, því að fyrir hverja krónu sem sett er í menninguna koma TVÆR til baka. Þetta er í formi aukinna starfa, skatta, virðisaukaskatts og gjaldeyris sem kemur inn í landið. Þar sem þjóðfélagsuppbygging og virðisaukaskattur er viðlíka og hjá nágrönnum okkar tel ég að niðurstaða slíkra kannanna yrði hér mjög svipuð.

Í öðru lagi þá gera listamannalaun það að verkum að listamenn geta sinnt því starfi sem þeir eru bestir í og hafa menntað sig til, í stað þess að vera í aukavinnu við skúringar, afgreiðslustörf, bankastörfum, kennslu o.s.frv. sem aðrir eru mun færari að sinna. Þannig losna hreinlega störf fyrir aðra, þar sem listamenn mega ekki þiggja laun á örðum stað meðan þeir gegna listamannalaunum. Í landi þar sem atvinnulausir eru 17.000 manns tel ég að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að hreinlega styrkja alla 3.000 listamenn í landinu (tala félagsmanna í BÍL – Bandalagi íslenskra listamanna) til að sinna sínum hugðarefnum og láta þannig atvinnulausum eftir þau störf sem þeir sinna sér til viðurværis nú. Þannig myndi atvinnulausum fækka niður í 15.000. Raunar myndi atvinnuleysið minnka enn meir ef marka má aðra könnum sem gerð var bæði í Finnlandi og Danmörku. Þar fundu menn út að fyrir hvern starfandi listamann í landinu í fullu starfi eru níu í vinnu beinlínis vegna hans starfa og við að þjónusta hann. Þarna erum við að tala um fjölmiðlafólk (fyrst skal frægan telja), vefforritara , starfsmenn listasafna, gallería, póshúsa, verslana sem selja efniviðinn, flugfélaga, samgöngufyrirtækja, prentsmiðja og svo mætti lengi telja. Mér reiknast til að við gætum einfaldlega útrýmt atvinnuleysi með því að setja alla listamenn landsins á ,,spenann” og skapað að auki 13.000 störf, því það er enginn endir á því hvað frjóum listamönnum dettur í hug að setja á laggirnar ef þeim er gefinn tími og ráðrúm til þess.

Eini viðmælandinn Í bítið sem mér fannst hafa eitthvað til málanna að leggja var kvennmaður sem vildi láta tekjutengja listamannalaunin, hugmynd sem er alls ekki fráleit og hefur reyndar lengi verið við lýði hjá norðmönnum. Þannig tryggir ríkið starfandi listamönnum sem uppfyllt hafa vissann punktafjölda (sem byggist á blöndu af námi, sýningarfjölda og aldri) lágmarkslaun(n.minstelönn) þar sem listamaðurinn fær milligjöfina frá ríkinu hafi honum ekki tekist að selja listaverk sem nemur atvinnuleysisbótum þann mánuðinn.

Fyrst rætt er um Noreg þá má geta þess að út var að koma svartaskýrsla þar í landi, sem lýsir bágri stöðu myndlistarmanna. Ég hef dvalið langdvölum í Noregi og hefur nú fundist sem þar drjúpi smjör af hverju strái og bíð því spennt að komast yfir eintak af þessari skýrslu. Ég vil að SÍM fái óháða aðila til að bera norsku skýrsluna saman við stöðu íslenskra myndlistarmanna og mætti segja mér að staðan væri svona líkt og hjá Oliver Twist fyrir og eftir ættleiðingu. Kannski væri auðveldasta lausnin á deilumálum um listamannalaun að þiggja boð norðmannsins sem vildi gera Ísland ríki í Noregi, ég tel allavega að þá væri okkur myndlistarmönnum borgið.

 

Hrafnhildur Sigurðardóttir er myndlistarmaður, forstöðumaður og hugmyndasmiður Ness listamiðstöðvar á Skagaströnd og frambjóðandi í formannskosningu SÍM – Sambandi íslenskra myndlistarmanna sem verða laugardaginn 6. mars.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú segir;

"Í öðru lagi þá gera listamannalaun það að verkum að listamenn geta sinnt því starfi sem þeir eru bestir í og hafa menntað sig til, í stað þess að vera í aukavinnu við skúringar, afgreiðslustörf, bankastörfum, kennslu o.s.frv. sem aðrir eru mun færari að sinna."

Bíddu nú hæg, heldur þú að þeir sem fást við tónlistarkennslu séu síðri listamenn en aðrir?

Sumt af okkar allra færasta listafólki fæst vi'ð kennslu og sem betur fer segi ég nú bara.

Og hvaða tal er þetta um samsæriskenningar er þetta hjá þér þótt fólk hafi skoðun á því hvernig tekjum (eða réttara sagt skuldum) ríkis og sveitarfélaga er varið?

Hér er búið að loka fyrir greiðslur til uppbyggingar Olweusarverkefnisins, hér er búið að skera niður umtalsvert greiðslur frá hinu opinbera til tónlistarskólanna og upphæð sú sem veitt er í listamannalaun dregur hátt í þá upphæð í dag.

Hvaða fjandans bull er þetta síðan um arðsemi sem engin hefur fest hönd á? Komdu með tölur og concrete rannsóknir á því, smelltu því hér fram og sannaðu það mál.

Bugl, SÁÁ, mæðrastyrksnefnd, FSA, þetta eru stofnannir úr hafsjó sem hefðu full not fyrir þetta fé sem um er rætt.

Það er ömurlegt að lesa annað eins bull eins og þetta.

sandkassi (IP-tala skráð) 4.3.2010 kl. 17:46

2 identicon

Í ofanálag þá talar þú um atvinnuskapandi þátt í þessu. Skatttekjum er sem sagt veitt út í kerfið þar sem þær fara í hringi í þjónustu við "listamenn".

"Listamaðurinn" fær síðan mögulegan gróða hreinan í sinn vasa, það er ekki eins og að almenningur fái hlutdeild í því.

Þá væri nær að þetta frábæra listafólk leytaði sér samninga við útgefendur og sponsora á opnum markaði, þá er nú oftar en ekki að viðkomandi vill fá hlutdeild í mögulegum hagnaði.

sandkassi (IP-tala skráð) 4.3.2010 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband