Óforbetranlegur safnari

Ég er fagurkeri og Safnari með stóru S-i. Sem dæmi safna ég slifsum og efnum fyrir bútasaum, garni fyrir prjón, ýmsu efni sem aðrir henda s.s. jólapappír og borða, hólka innan úr klósettpappír og ekki síst fallegum munum úr ABC, Hertex og Góða hirðinum. Geymslan í húsinu mínu (3 fm), garðskúrinn (11 fm) og leigugeymslan úti í bæ (6 fm) eru öll full af dóti. Hingað til hefur mér fundist þetta í lagi af því ég vinn við að skapa og þarf því eðlilega að viða að mér efnum í verkin. Ég fæ hálfgert kvíðakast ef ég þarf að losa mig við hluti, eins og það ætti að fara að taka úr mér lifur og lungu án þess að setja ný í staðinn. Þannig var staðan hjá mér nú í byrjun sumars. 


EN.... á þessu síðasta ári lenti ég bæði í að aðstoða tengdamömmu og mömmu við að flytja úr einbýlishúsi, eftir 50 ára búsetu, í minni íbúðir. Ég sór þess þá að leggja það ekki á einkasoninn, eða fjölskyldumeðlimi, að losa allar geymslurnar og tók því ákvörðun um að Taka til með stóru T-i.

Ég ákvað að gefa mér ár í að klára tiltektina og byrja eftir sumarfrí. Ég las mér til um hvernig best væri að skipuleggja aðgerðina og spurði vinkonurnar, sem allar virtust vera að taka til og gátu gefið góð ráð. Besta ráðið held ég hafi verið að byrja ekki endilega á versta staðnum, heldur þar sem þér gæti fundist skemmtilegt að byrja – þann daginn. Það þýðir að ég veð svolítið úr einu í annað en smám saman er ég að ná tökum á þessu. Ég er búin að selja dót fyrir 200.000 á bland og kaupa þar hillur, skrifborð og  lampa í hagræðingarskyni og skrúfur, nagla, stormjárn og baldakín til að lagfæra hengja upp hluti og ljós, sem staðið hefur til lengi.

Nú eru liðnir rúmir tveir mánuðir frá því ég virkilega hófst handa. Ég segi öllum sem heyra vilja að ég sé að taka til (svo ég hætti nú ekki í miðjum klíðum) og ég hef fengið ófá góð ráð á leiðinni. Ég er búin að tæma leigugeymsluna og get nú komist inn fyrir hurðina á garðskúrnum, en það er mikið eftir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband